Forvarnir
Málþing - Samfélagsnálgun forvarnamánaðarins
Málþing samfélagsnálgunar forvarnamánaðarins verður haldið á Hótel Grand Reykjavík, fimmtudaginn 31. október kl. 9-12:30.
Yfirskrift málþingsins, sem verður í opnu streymi er "Við kunnum þetta – Öryggi og vellíðan fyrir öll börn og ungmenni með samræmdum samfélagsaðgerðum frá þingi til þorps".
Forvarnardagurinn var haldinn í nítjánda sinn í ár og hefur hann verið útvíkkaður í forvarnamánuðinn október. Forvarnir eru alltaf jafn mikilvægar en margir hafa lagt enn meiri áherslu á þær í október. Við viljum stuðla að því að börn og ungmenni geti upplifað öryggi og vellíðan í sínu samfélagi. Ef þeim líður vel þá gengur þeim vel, en til þess þurfa þau stuðning alls samfélagsins. Verkefnastjórn Heilsueflandi samfélags og Forvarnardagsins hafa efnt til þessa málþings á vegum embættis landlæknis. Stuðningsefni hefur verið gert fyrir sveitarfélög með aðgengilegu efni sem varðar líðan ungmenna og forvarnir. Mikið er til af gagnreyndri fræðslu og upplýsingum sem getur nýst vel fyrir þá sem vinna með börnum og þegar kemur að líðan þeirra og forvörnum. Ekki er nauðsynlegt að finna upp hjólið heldur er gott að vinna með það sem við kunnum og vitum að virkar. Það getur verið erfitt að vita hvar á að leita að upplýsingum og því teljum við hjálplegt að geta stuðst við glærupakka þar sem vísað er á ýmsa fræðslu, bjargráð, tölulegar upplýsingar og fleira.
Fulltrúar starfandi þingflokka hafa fengið boð á pallborðsumræður sem verða á málþinginu kl. 11:40, Elín Hirst stjórnar umræðum.
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Ríkislögreglustjóri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta og Heimili og skóli.