Umhverfismál
Samdráttur í losun
Sveitarfélög landsins eru í lykilstöðu til að stuðla að árangri í loftslagsmálum og á sama tíma auka velsæld og öryggi íbúa sinna. Loftslagsverkefnið er brýnt og það er tvíþætt: draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlagast þeim afleiðingum loftslagsbreytinga sem munu óhjákvæmilega skella á okkur.
Ýmis tækifæri eru til staðar þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta samtímis lífsgæði íbúa og þurfum við að einbeita okkur að því að grípa þessi tækifæri á lofti. Dæmi um slík tækifæri eru bættar almenningssamgöngur og uppbygging göngu- og hjólastíga. Aðgerðir til að gera samgöngur innan sveitarfélaga loftslagsvænni eru einnig líklegar til að bæta loftgæði fyrir nærsamfélagið. Þannig geta mikilvægar loftslagsaðgerðir smitað út frá sér á jákvæðan hátt og stuðlað að bættri lýðheilsu og minna álagi á heilbrigðiskerfið.
Til að allt samfélagið njóti góðs af ávinningi loftslagsaðgerða þarf að huga að réttlætissjónarmiðum. Gæta þarf að því að aðgerðirnar komi ekki verr niður á tilteknum hópum og því þarf að tryggja gott samtal við nærsamfélagið við undirbúning og innleiðingu aðgerðanna.
Fyrsta skrefið til að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda er að sveitarfélög setji sér aðgerðamiðaða loftslagsstefnu. Verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum er ætlað að styðja íslensk sveitarfélög við að vinna slíka loftslagsstefnu, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn.
Án virkrar þátttöku sveitarfélaga munu markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum ekki nást. Það er því eitt af forgangsverkefnum Sambandsins fyrir veturinn 2024-25 að veita sveitarfélögunum aukinn stuðning við gerð þessara aðgerðamiðuðu loftslagsstefna þar sem þær eru ákveðin forsenda árangurs í loftslagsmálum auk þess að vera lögbundin skylda.