Umhverfismál
European City Facility
Íslenskum sveitarfélögum stendur nú til boða að sækja um styrk í svokallað European City Facility verkefni sem fjármagnað er af LIFE áætlun ESB. Styrkirnir eru veittir til verkefna sem miða að því að þróa fjárfestingaáætlanir í þágu orkuskipta og aukinnar orkunýtingar. Upphæð styrkja er u.þ.b. 9 milljónir króna (60.000 Evra), auk þess sem styrkþegar fá sérhæfðan stuðning sérfræðinga við verkefnið. Opnað verður fyrir umsóknir 15. október og skilafrestur umsókna er 18. desember 2024. Er þetta í síðasta skiptið sem auglýst verður eftir umsóknum um þessa styrki.
Styrknum er ætlað styðja við gerð fjárfestingaáætlunar á sviði orkuskipta, orkunýtni og loftslagsmála sem er sérsniðin eftir hverjum umsækjenda. Fyrri styrkþegar hafa nýtt fjármagnið til fjölbreyttra aðgerða, meðal annars við gerð hagkvæmniathugana, markaðsrannsókna, hagaðilagreiningar og mótun aðgerða til að auka samstarf við hagaðila, greiningar á lagaumhverfi, efnahagslegu umhverfi og fjármálum. Styrkþegar geta ráðist í ýmsar aðgerðir en skilyrði er að þær þjóni því að miða að þróun fjárfestingaáætlunar á sviði orkuskipta og -nýtni.
Landstengiliður á Íslandi: Gyða Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Netfang: ce.iceland@eucityfacility.eu